Erlent

Varfærin viðbrögð við samkomulagi í Palestínu

Samningnum fagnað í Gasaborg í gær.
Samningnum fagnað í Gasaborg í gær. MYND/AP

Viðbrögðin við samkomulagi stríðandi fylkinga í Palestínu um myndun þjóðstjórnar hafa víðast hvar verið varfærin. Hamas fær samkvæmt því flest ráðuneyti í stjórninni í sinn hlut en ekkert er þar kveðið á um stöðu Ísraels. Til átaka kom í Jerúsalem í morgun á milli ísraelskra lögreglumanna og Palestínumanna.

Það stóðst sem Mahmoud Abbas, forseti Palestínu og leiðtogi Fatah, sagði fyrir fund sinn með oddvitum Hamas Mekka í Sádi-Arabíu um að ekki yrði staðið upp frá samningaborðinu fyrir en samkomulag um þjóðstjórn lægi fyrir.

Vonast er til að með því hafi endi verið verið bundinn á átök fylkinganna sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði. Í samkomulaginu er kveðið á um að Hamas fái níu ráðuneyti í sinn hlut í nýju stjórninni, Fatah sex og fjórir ráðherrar tilheyra öðrum smærri hreyfingum.

Hamas-maðurinn Ismail Haniyeh verður áfram forsætisráðherra en ráðherrar innanríkis-, utanríkis- og fjármála- koma úr röðum óháðra. Tilveruréttur Ísraelsríkis er hins vegar ekki viðurkenndur sérstaklega í samkomulaginu og sú staðreynd skýrir hversu hófstillt viðbrögðin við því hafa verið.

Talsmenn bandarískra stjórnvalda og Evrópusambandsins telja of snemmt að segja hvort samkomulagið þýði að styrkgreiðslur til heimastjórnarinnar verði teknar upp á ný og Ísraela er varla hægt að skilja öðru vísi en að ekkert hafi breyst að þeirra mati.

Mikill fögnuður greip um sig á Gaza þegar tíðindin frá Mekka spurðust út og sprengdu menn flugelda og hleyptu af byssum í gleði sinni. Í morgun syrti hins vegar í álinn því þá kom til átaka við al-Aqsa-moskuna í Jerúsalem á milli múslima sem voru þar við föstudagsbænir og ísraelskra lögreglusveita. Mótmælendur köstuðu steinum og flöskum að lögreglu sem svaraði með táragasi. Nokkrir hafa særst í átökunum en kveikja þeirra eru vegaframkvæmdir Ísraela á þessum ginnhelga stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×