Erlent

Hóta að vísa Pakistan úr bandalagi samveldisríkja

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, mætir miklum þrýstingi þessi dægrin.
Pervez Musharraf, forseti Pakistans, mætir miklum þrýstingi þessi dægrin.

Utanríkisráðherrar innan bandalags bresku samveldisríkjanna hafa gefið Pervez Musharraf, forseta Pakistans, tíu daga til að afnema neyðarlög í landinu ellegar verður landinu vísað úr breska samveldinu. Þetta var ákveðið á aukafundi ráðherranna í Lundúnum í kvöld.



Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að ráðherrarnir krefjist þess einnig að Musharraf hætti sem yfirmaður pakistanska hersins og sleppi pólitískum föngum sem hnepptir hafa verið í varðhald á síðustu dögum.

Musharraf lýsti yfir neyðarástandi í landinu fyrir rúmri viku og nam stjórnarskrána úr gildi en hefur mætt harðri andstöðu vegna aðgerðanna, þar á meðal frá Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Musharraf hefur hins vegar lofað að þingkosningar verði haldnar í janúar eins og til stóð en það hefur ekki þótt nóg.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að sumir ráðherrarnir á fundinum í kvöld hafi viljað vísa Pakistan strax úr bandalagi samveldisríkjanna en aðrir hafi ekki viljað gera neitt. Niðurstaðan hafi verið sú að gefa Musharraf frest til 22. nóvember að taka stjórnarskrána í gagnið aftur og afnema allar hömlur á starfsemi fjölmiðla.

Þess má geta að Pakistan var vísað úr bandalaginu árið 1999 þegar Musharraf hrifsaði völdin í sínar hendur í landinu. Það var hins vegar tekið aftur inn í bandalagið árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×