Enski boltinn

Tekur Tottenham stökk upp?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jermaine Jenas.
Jermaine Jenas.

Einn leikur er í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og er hann ansi athyglisverður. Það er viðureign Newcastle og Tottenham á St James´Park. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Sýn 2.

Michael Owen, sóknarmaður Newcastle, er til í slaginn og þá má búast við því að Joey Barton verði í leikmannahópnum. Mark Viduka er tæpur vegna meiðsla og það sama á við um Shola Ameobi sem verður líklega ekki með.

Hjá Tottenham er markvörðurinn Paul Robinson fjarri góðu gamni eftir að hafa meiðst á kálfa með enska landsliðinu. Hans verður þó varla sárt saknað í liði Tottenham miðað við frammistöðu hans á tímabilinu.

Ricardo Rocha, Kevin-Prince Boateng, Benoit Assou-Ekotto og Ledley King eru ásamt Robinson á meiðslalistanum.

Jermaine Jenas, miðjumaður Tottenham, er að fara að mæta sínum fyrrum félögum. „Tottenham er eina félagið sem ég er að hugsa um. Við stefnum á þrjú stig í kvöld," sagði Jenas við enska fjölmiðla.

Tottenham er í erfiðri stöðu í deildinni en getur stokkið úr þriðja neðsta sæti og upp í það tólfta með sigri. Með heimasigri verður Newcastle áfram í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×