Theodór Elmar Bjarnason er í leikmannahópi Glasgow Celtic sem mætir Benfica í Meistaradeild Evrópu á miðvikudag. Leikurinn fer fram á heimavelli Benfica í Portúgal.
Leikurinn er í D-riðli Meistaradeildar Evrópu en Celtic hefur þrjú stig eftir tvo leiki, líkt og AC Milan. Shaktar Donetsk er á toppnum en liðið hefur unnið báða leiki sína. Benfica er án stiga á botninum.
Celtic hefur gengið erfiðlega á útivöllum í Evrópukeppninni og aðeins hlotið eitt stig í síðustu þrettán útileikjum.
Theodór Elmar er hægt og rólega að brjóta sér leið inn í aðallið Celtic en þessi efnilegi leikmaður var á varamannabekk liðsins í grannaslagnum gegn Rangers um síðustu helgi.