Erlent

Flugu milli Íslands og Færeyja

Þórir Guðmundsson skrifar

Átta rússneskar herflugvélar fóru inn í íslenska flugumferðarsvæðið í morgun án þess að tilkynna flugmálayfirvöldum um komu sína.

Flug rússneskra herflugvéla yfir Norður-Atlantshafi er að verða reglubundið - ekkert ósvipað því sem var á kaldastríðstímanum. Í þetta skipti urðu Norðmenn varir við Rússana þar sem þeir komu frá Kolaskaga og flugu meðfram lofthelgi Noregs.

Norðmenn sendu tvær F-16 flugvélar til móts við Rússana og fylgdu þeim í suðurátt. Rússnesku vélarnar átta héldu áfram, flugu á milli Íslands og Færeyja - innan íslenska flugumferðarsvæðisins en utan lofthelgi - og fóru í átt að Bretlandi. Þar tóku breskar herflugvélar á móti þeim.

Flugvélarnar átta flugu tvær og tvær saman og að minnsta kosti einhverjar þeirra voru af gerðinni Tupolev 95, sem innan NATO eru kallaðar Birnir. Þegar Rússarnir voru komnir suður fyrir Færeyjar sneru þeir við og rötuðu sömu leið heim, framhjá Noregi þar sem F-16 þoturnar tóku á móti þeim á ný.

Á meðan þessu fór fram voru rússneskar og kínverskar sérsveitir við sameiginlegar æfingar rétt fyrir utan Moskvu. Um eitt þúsund sérsveitamenn tóku þátt í æfingunni.

Svo vill til að síðast þegar rússneskir "birnir" flugu suður á milli Íslands og Noregs - um miðjan ágúst - þá voru Kínverjar og Rússar líka með sameiginlegar heræfingar.

Talsmaður norska hersins sagði í samtali við Stöð tvö að leiðin sem rússnesku herflugvélarnar fóru í morgun virtist nú vera orðin hefðbundin á ný, fimmtán árum eftir lok kalda stríðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×