Fótbolti

FH sigraði í fyrsta leik Landsbankadeildarinnar

Guðjón Þórðarson stýrði skagamönnum í fyrsta leik Landsbankadeildarinnar
Guðjón Þórðarson stýrði skagamönnum í fyrsta leik Landsbankadeildarinnar

Íslandsmeistararnir í FH sigruðu nú rétt í þessu ÍA með þremur mörkum gegn tveimur í hörkuspennandi fyrsta leik Landsbankadeildar karla. Leikurinn fór fram í hvassviðri á heimavelli ÍA á Akranesi. Ekki mátti á milli sjá hjá liðunum þrátt fyrir að ÍA hafi leikið mestanpart leiksins einum manni færri.

framvinda leiksins var á þessa leið:

Tryggvi Guðmundsson skoraði fyrir FH á tíundu mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Níu mínútum síðar var svo dæmd vítaspyrna á ÍA þegar boltinn fór í hönd Árna Þórs Guðmundssonar, fékk hann fyrir vikið gula spjaldið. Tryggvi Guðmundsson fór á punktinn og skoraði fyrsta mark Landsbankadeildarinnar í sumar. Á 24 mínútu fékk Árni Þór að líta sitt annað gula spjald þegar hann braut á Matthíasi Guðmundssyni og var því rekinn af velli. Á 30 mínútu átti Tommy Nielsen hjá FH þrumuskot að marki sem geigaði en Arnar Gunnlaugsson náði frákastinu og skoraði, og staðan orðin 0-2 fyrir FH. Þegar ein mínúta var eftir af fyrri hálfleik minnkuðu skagamenn muninn þegar Bjarni Guðjónsson skoraði af öryggi úr vítaspyrnu eftir að Sverrir Garðarsson braut á Jóni Vilhelm Ákasyni. 1-2 í hálfleik

Á fimmtugustu mínútu skoraði Matthías Guðmundsson fyrir FH eftir sendingu frá Tryggva Guðmundssyni. Þetta var hans fyrsta mark fyrir FH síðan hann kom frá Vali. Átta mínútum síðar minnkaði Þórður Guðjónsson muninn fyrir ÍA. Þrátt fyrir góða spilamennsku einum leikmanni færri tókst skagamönnum ekki að jafna leikinn og var lokastaðan 2-3 fyrir FH.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×