Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool hefur ritað FIFA bréf þar sem það sækir um undanþágu fyrir miðjumanninn Javier Mascherano hjá West Ham og vonast til að hann fái grænt ljós á að spila með þriðja liðinu á leiktíðinni. Liverpool mun líklega ganga frá lánssamningi við leikmanninn ef félagið fær málið í gegn.
Mascherano hefur ekki spilað nema sex mínútur síðan í október og hefur farið fram á að fá að fara frá West Ham. Koma hans til félagsins hefur verið tómt klúður, en hann kom á Upton Park þann 31. ágúst ásamt félaga sínum Carlos Tevez.