Erlent

Tveir látnir í flóðunum í Bretlandi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Tveir létust í flóðunum í Bretlandi þegar þeir reyndu að dæla vatni úr íþróttahúsi í Gloucesterskíri og eins er saknað síðan á laugardag. Enn eru 340 þúsund manns án neysluvatns og óttast er að skítugt flóðvatnið geti stofnað heilsu fólks í hættu.

Talið er að mennirnir tveir hafi látist vegna eiturgufu úr bensínvél sem þeir notuðu við að dæla vatninu út úr Rugbyklúbbi í Tewkesbury. Ekki er vitað um frekari mannskaða í flóðunum, en eins er saknað frá því á laugardag.

íbúar Oxfordskíris og Berkshire anda nú léttar þar sem vatnsmagn minnkaði töluvert í ánni Thames í nótt, en margir reyndu þó að fyrirbyggja að flóðið næði inn á heimili þeirra með því að byggja varnarveggi úr sandpokum.

Vatnsfyrirtækið Severn Trent segir að drykkjarhæfu vatni verði komið á til um 10 þúsund heimila í Tewkesbury í dag, en enn gæti tekið tvær vikur að koma neysluvatni á tæplega fjörtíu þúsund heimili. Þá tilkynnti fyrirtækið að herinn yrði ábyrgur fyrir að fylla á færanlega vatnsskammtara á götum flóðasvæðanna, en fyrirtækið hafði ekki við þar sem þeir tæmdust jafnóðum. Gordon Brown forsætisráðherra lagði í gær ofuráherslu á að vatni yrði komið á til allra heimila sem allra fyrst. Eitthvað hefur borið á því að fólk hamstri vatn og reyni svo að selja það á uppsprengdu verði.

Yfirvöld vara fólk við að komast í beina snertingu við flóðvatnið sem er blandað skólpi og eiturefnum, en segja þó ekki bráða hættu á sjúkdómum.

Metúrkoma var í Bretlandi í júnímánuði og stefnir einnig í met í þessum mánuði. Úrkoman síðustu daga hefur meðal annars stofnað kartöfluuppskeru á svæðinu í hættu. Enn rignir á flóðasvæðunum, en búist er við um 10 millimetra úrkomu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×