Erlent

Flokkur Erdogans vann stórsigur í kosningum í Tyrklandi

Forsætisráðherra Tyrklands ætlar að halda áfram endurbótum í landinu og vinna að inngöngu Tyrklands í Evrópusambandið. Flokkur Erdogans forsætisráðherra vann sigur í þingkosningum í Tyrklandi í gær.

Þegar búið var að telja nær öll atkvæðin í nótt var ljóst að flokkurinn hefði unnið stórsigur og fengið tæp fjörtíu og sjö prósent atkvæða sem er þrettán prósentum meira fylgi en flokkurinn hafði í síðustu þingkosningum. Þar með var ljóst að Erdogan og AK-flokkurinn, sem stendur fyrir réttlætis- og þróunarflokkinn, hefði tryggt sér umboð til að stjórna Tyrklandi næstu fimm árin.

Íslamskar rætur flokksins og áhersla flokksins á trúaða kjósenda í kosningabaráttunni hefur valdið mörgum áhyggjum. Andstæðingar forsætisráðherrans óttast að flokkurinn vilji auka áherslu á trúmál meðal landsmanna.

Í ræðu eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir hét Erdogan því að halda áfram að vinna að umbótum í landinu og koma Tyrklandi inn í Evrópusambandið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×