Íslenski boltinn

Útilokar ekki að koma aftur

Casper Jacobsen er hér á fullri ferð í leik Breiðabliks gegn ÍA fyrr í mánuðinum.
Casper Jacobsen er hér á fullri ferð í leik Breiðabliks gegn ÍA fyrr í mánuðinum. fréttablaðið/vilhelm

Sá leikmaður sem þótti skara fram úr í áttundu umferð Landsbankadeildar karla að mati Fréttablaðsins er Casper Jacobsen, markvörður Breiðabliks. Hann var fenginn til liðsins eftir að Hjörvar Hafliðason meiddist fyrr í sumar og hefur Jacobsen staðið vaktina vel í hans fjarveru.



„Ég nýt verunnar hjá Breiðabliki afar vel. Ég kom hingað til að spila fótbolta og það er einmitt það sem ég hef fengið að gera. Nú erum við byrjaðir að safna stigum og er þetta allt mjög ánægjulegt."

Jacobsen hefur verið varamarkvörður hjá danska úrvalsdeildarliðinu Álaborg undanfarið eitt og hálfa árið og var því feginn því að fá byrjunarliðssætið hjá Blikum.



„Áður en ég kom hingað var ég fullvissaður um að ég væri að spila með einu besta liðinu í bestu deildinni. Þetta er líka kærkomið fyrir mig og góður gluggi því það eru ekki margar deildir í gangi eins og er," sagði Jacobsen. Samningur hans við Álaborg er útrunninn og býst hann ekki við því að fara aftur þangað.



„Ég vonast auðvitað til að komast í félag þar sem ég fæ að spila reglulega. En eins og er ætla ég að taka þessa þrjá mánuði og sjá til hvernig það gengur. Hver veit nema að ég komi aftur til Íslands næsta sumar. Ég útiloka ekki neitt eins og er," sagði Jacobsen sem verður með Breiðabliki til loka ágústsmánaðar.



Íslenski boltinn hefur komið honum þægilega á óvart. „Ég vissi svo sem ekki við hverju ég átti að búast því ég hafði ekki séð mikið til íslenska boltans. Engu að síður kom mér á óvart hversu góður fótboltinn væri hér. Margir halda kannski að þetta sé í líkingu við fjórðu deildina í Englandi en þannig er það alls ekki og er það jákvætt."



Hann talar einnig vel um íslenska stuðningsmenn, sérstaklega eftir grannaslag Breiðabliks og HK í síðustu umferð. „Það koma kannski ekki eins margir áhorfendur á leikina hér og í Dannmörku en þeir sem koma eru mjög háværir og styðja sitt vel mjög vel. Þetta eru mjög góðir áhorfendur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×