Erlent

Hitabylgja í SA-Evrópu veldur miklum skaða

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Talið er að allt að fimm hundruð manns hafi látist í Ungverjalandi af völdum hitabylgjunnar sem gengið hefur yfir landið síðustu daga með um og yfir 40 stiga hita. Dauðsföll í nágrannaríkjunum í sunnanverðri Evrópu eru einnig rakin til hitannna og víða loga skógareldar vegna þurrka.

Í gær létust 27 vegna hitanna í Rúmeníu og hundruð eldri borgara féllu í yfirlið á götum vegna hitanna sem náðu 42 gráðum í suðurhluta landsins. Vanalega er lofthiti mældur í tveggja metra hæð, en veðurfræðingar mældu rúmlega 65 gráðu hita við jörðu.

Rafmagn hefur víða farið af vegna ofnotkunar þar sem óvenjumargir notast við loftkælingu. Uppskerubrestur er víða á svæðinu vegna skógarelda og hita, sérstaklega í Serbíu, Rúmeníu og Ungverjalandi. Á síðasta ári voru það flóð sem herjuðu á íbúa flestra þurrkasvæðanna í Rúmeníu og Ungverjalandi.

Skógareldar geisa víða í löndunum í kring. Á Ítalíu fundust tvö brunnin lík í bíl suður af Róm í gær og tveir létust á strönd skammt frá úr reykeitrun vegna eldanna. Ítölsk yfirvöld telja að brennuvargar hafi komið skógareldunum af stað, en ekki miklir hitar. Þá lést flugmaður þegar flugvél sem reyndi að slökkva eldana fórst. Tveir flugmenn létust einnig í Ungverjalandi við slökkvistörf.

Alvarlegur uppskerubrestur er í Serbíu og víðar í nágrannalöndunum og hefur sums staðar veruleg áhrif á efnahag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×