Erlent

Aldrei jafn óvinsæll

Bush forseti kom til Hvíta hússins í Washington í gær til að flytja stefnuræðu sína eftir helgardvöl í Camp David.
Bush forseti kom til Hvíta hússins í Washington í gær til að flytja stefnuræðu sína eftir helgardvöl í Camp David. MYND/AP

Washington Í gærkvöldi steig George W. Bush í ræðustól á Bandaríkjaþingi og flutti stefnuræðu sína, eins og Bandaríkjaforsetar gera jafnan um þetta leyti árs. Þetta er næstsíðasta stefnuræðan sem Bush flytur á embættistíð sinni.

 

Í ræðunni, sem hann flutti klukkan tvö í nótt að íslenskum tíma, nokkru eftir að Fréttablaðið fór í prentun, hugðist Bush bjóða andstæðingum sínum á þingi samvinnu í fjölda mála á innlendum vettvangi, meðal annars heilbrigðismálum, orkumálum og menntamálum, til þess að vega upp á móti djúpstæðum ágreiningi hans við demókrata um Íraksstríðið.

Samkvæmt nokkrum nýbirtum skoðanakönnunum, sem gerðar voru bæði í Bandaríkjunum og víðar um heim, hefur álit fólks á Bush og stefnu Bandaríkjastjórnar sjaldan verið minna en einmitt nú.

Tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum telja Bush og ríkisstjórnina vera á villi-götum, að því er fram kemur í skoðanakönnun sem AP fréttastofan lét gera. Þá telja sex af hverjum tíu litlar líkur á því að repúblikanar og demókratar geti á þingi komið sér saman um lausnir á helstu vandamálum þjóðarinnar.

Á hinn bóginn hefur stuðningur Bandaríkjamanna við áform forsetans um að senda fleiri hermenn til Íraks heldur vaxið eftir að hann kynnti þau áform í ræðu í síðustu viku. Fyrir ræðuna töldu 26 prósent það vera rétt, en nú er 31 prósent komin á þá skoðun.

Hins vegar eru 51 prósent mjög óánægð með frammistöðu forsetans, samkvæmt skoðanakönnun sem dagblaðið Washington Post og sjónvarpsstöðin ABC létu gera.

Þá segjast 65 prósent Bandaríkjamanna vilja að bandaríska herliðið fari frá Írak á næsta ári, samkvæmt skoðanakönnun dagblaðsins Wall Street Journal og sjónvarpsstöðvarinnar NBC.

Þá segir Washington Post að á síðustu sex áratugum hafi einungis tveir forsetar mælst jafn óvinsælir í skoðanakönnunum blaðsins, en það voru þeir Harry Truman þegar Kóreustríðið stóð sem hæst og Richard Nixon á tímum Watergate-hneykslisins.

Breska útvarpið BBC lét enn fremur gera skoðanakönnun sem náði til 26 þúsund manna í 25 löndum í öllum heimsálfum, þar sem 73 prósent svarenda sögðust andvíg stríðinu í Írak. Þá sögðust 49 prósent telja að Bandaríkin hefðu einkum slæm áhrif í heiminum, en aðeins 29 prósent sögðu Bandaríkin hafa einkum góð áhrif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×