Erlent

Jóakim prins aftur í hnapphelduna

Jóakim er hér ásamt foreldrum sínum og sonum.
Jóakim er hér ásamt foreldrum sínum og sonum. MYND/AFP

Jóakim Danaprins hyggst ganga í það heilaga á ný og verður brúðkaup hans og hinnar frönsku Marie Cavallier í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dönsku hirðinni.

Jóakim og Marie hafa þekkst í tvö ár og var trúlofun þeirra gerð opinber í dag eftir fund í ríkisráði Danmerkur þar sem skötuhjúin voru viðstödd ásamt Margréti Danadrottningu og Hinrik prins, foreldrum brúðgumans.

Marie Cavalier er 31 árs og fædd í París. Hún fluttist hins vegar til Sviss þegar foreldrar hennar skildu og hefur búið þar síðan. Nú verður hins vegar breyting á því hún flytur sig til Schackenborgarhallar á Suður-Jótlandi til heitmanns síns.

Marie er menntuð í viðskipta- og markaðsfræðum frá háskólum í Bandaríkjunum og starfar nú hjá fyrirtæki stjúpföður síns sem er fjárfestingarfyrirtæki.

Jóakim var áður giftur Alexöndru greifynju og eiga þau tvo syni saman. Þau skildu hins vegar fyrir um þremur árum.

Með þessum tíðindum verða tvær Maríur við dönsku hirðina, María hin franska og María Elísbet, eiginkona Friðrik Krónprins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×