Innlent

Smyglskútan stefndi á fiskibát

Smyglaraskútan stefndi á þennan fiskibát úti fyrir Austfjörðum í fyrrinótt. Mennirnir á skútunni svöruðu ekki kalli sjómannanna sem þurftu að víkja bátnum undan.
Smyglaraskútan stefndi á þennan fiskibát úti fyrir Austfjörðum í fyrrinótt. Mennirnir á skútunni svöruðu ekki kalli sjómannanna sem þurftu að víkja bátnum undan. Mynd/Hafþór Hreiðarsson
Skipstjóri línubáts forðaði árekstri við smyglaraskútuna úti á opnu hafi í fyrrinótt og mátti ekki miklu muna að illa færi.

„Þeir skriðu með síðunni á okkur," segir Ólafur Óskarsson, skipstjóri á línubátnum Kristínu GK sem í fyrrinótt forðaði árekstri við smyglaraskútuna sem gerð var upptæk á Fáskrúðsfirði í gær.

Ólafur og áhöfn hans var norðan við Hvalbak þegar þeir urðu varir við skútuna sem stefndi beint á bát þeirra um klukkan eitt í fyrrinótt. „Við héldum að þetta væri trilla og reyndum að kalla en þeir önsuðu engu," segir Ólafur sem við svo búið kveðst hafa lýst upp aðkomufleyið með ljóskösturum og vikið bát sínum undan til að forða árekstri.„Við rétt smugum fram hjá."

Að sögn Ólafs hélt skútan óbreyttri stefnu og stöðugri ferð allan tímann. „En við sáum engan ofanþilja," segir hann.

Áhöfnin á Kristínu tók heldur ekki eftir einkennismerkjum skútunnar eða undir hvaða fána hún sigldi enda kveður Ólafur þá ekki hafa verið að velta því fyrir sér. Hann segir að á þessum árstíma sé mjög óvenjulegt að sjá slíkar skútur á ferð „svona langt út í rassgati", eins og hann orðar það. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×