Erlent

Fátæktin aldrei verið meiri

Móðir í Hebron fylgdi börnum sínum í skólann á laugardaginn, fyrsta skóladag vetrarins. Ísraelskur hermaður fylgist með mannaferðum.
Móðir í Hebron fylgdi börnum sínum í skólann á laugardaginn, fyrsta skóladag vetrarins. Ísraelskur hermaður fylgist með mannaferðum. MYND/AP

Fátækt meðal Palestínumanna er nú meiri en nokkru sinni. Rúmlega helmingur allra heimila á svæðum Palestínumanna telst nú vera undir fátæktarmörkum, það er að segja 25 þúsund krónum á mánuði.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um efnahagsástandið í Palestínu, sem UNCTAD, Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun, sendi frá sér í lok síðustu viku.

Að meðaltali eru um sex manns í heimili í Palestínu. Í skýrslunni segir að margar fjölskyldur þurrausi alla sína varasjóði og sjái nú engar leiðir sér til framfærslu. Meira en ein milljón manna býr við mikla fátækt.

Atvinnuleysi er um þrjátíu prósent, þjóðartekjur á mann drógust saman um fimmtán prósent á síðasta ári og heildarþjóðarframleiðsla dróst saman um 6,6 prósent.

Í skýrslunni segir að meginástæðan fyrir þessu alvarlega ástandi sé sú stefna Ísraela að einangra efnahagslíf Palestínu frá heimsmarkaðnum. Nú sé mikilvægt að efla möguleika Palestínumanna til að stunda viðskipti, frekar en að einblína sífellt á öryggismálin. Þrátt fyrir erfitt pólitískt ástand sé ekki síst mikilvægt að opna verslunarleið milli Vesturbakkans og Gaza-strandar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×