Erlent

Eldarnir vandamál allrar Evrópu

Starfsmenn orkuvers í Grikklandi reyna að slökkva nálæga elda sem umkringja vinnustað þeirra.
Starfsmenn orkuvers í Grikklandi reyna að slökkva nálæga elda sem umkringja vinnustað þeirra. AP

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flaug yfir sviðna jörð Grikklands í þyrlu í gær og lofaði fjárstuðningi ESB við illa farin héruð. Alls 64 fórust í eldunum og um 190.000 hektarar ræktarlands og skóga lögðust í eyði.

Rýma þurfti tvö þorp til viðbótar í gær og bjarga hópi slökkviliðsmanna sem voru umkringdir eldtungum. „Við stöndum með ykkur og munum gera allt sem við getum til að styðja Grikkland,“ sagði Barroso eftir flugferðina ásamt forsætisráðherra Grikklands, Costas Karamanlis.

„Vandamál Grikkja er vandamál Evrópu. Við munum þurfa að endurbyggja það sem tortímdist,“ sagði Barroso. ESB tilkynnti um rúmlega 17 milljarða króna neyðaraðstoð, með vilyrði um aðra 34 milljarða eftir að ríkisstjórn Grikklands metur skemmdirnar.

Barroso sagði fjármunina munu koma úr Samstöðusjóði ESB, sem settur var á fót árið 2002 til að fjármagna uppbyggingu eftir náttúruhamfarir.

Öllum stærri eldsvoðum hefur tekist að halda í skefjum síðan á miðvikudag eftir að eldurinn hafði logað í viku.

Enn þurfa slökkviliðsmenn að berjast við nýja elda á hverri nóttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×