Erlent

Rekinn ráðherra handtekinn

Handtekinn Janusz Kaczmarek í fylgd sérsveitarlögreglumanna í Varsjá.
Handtekinn Janusz Kaczmarek í fylgd sérsveitarlögreglumanna í Varsjá. AP

Lögregla í Póllandi handtók á fimmtudag fyrrverandi innanríkisráðherra landsins, sem sakar forsætisráðherrann, Jaroslaw Kaczynski, um að beita leyniþjónustunni til að njósna um stjórnarandstæðinga og blaðamenn.

Handtaka Janusz Kaczmareks, sem Kaczynski rak úr embætti innanríkisráðherra í byrjun ágúst, kyndir enn frekar undir nýjasta hneykslinu í pólskum stjórnmálum, sem snýst um ásakanir um misbeitingu valds af hálfu hins íhaldssama stjórnarflokks, Laga- og réttlætisflokksins, í aðdraganda þingkosninga sem stefnir í að verði haldnar í haust.

Saksóknaraembættið í Varsjá staðfesti að Kaczmarek hefði verið handtekinn, ásamt fyrrverandi yfirmanni pólsku lögreglunnar, Konrad Kornatowski, og Jaromil Netzel, yfirmanni tryggingafélagsins PZU, sem er að meirihluta í ríkiseigu.

Er Kaczynski rak Kaczmarek gaf hann upp þá ástæðu að hann lægi undir grun um að hafa lekið upplýsingum sem spilltu fyrir spillingarrannsókn. Síðan þá hefur Kaczmarek sakað Kaczynski og fleiri framámenn í ríkisstjórninni um að beita leyniþjónustunni til að grafa upp eitthvað misjafnt um stjórnarandstæðinga og til að njósna um blaðamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×