Erlent

Æska sem lukkudýr SS

Yngsti nasistinn "Lukkudýrið" Alex Kurzem sést hér í SS-búningi í hópi liðsmanna lettnesku SS-sveitarinnar.
Yngsti nasistinn "Lukkudýrið" Alex Kurzem sést hér í SS-búningi í hópi liðsmanna lettnesku SS-sveitarinnar.

Örlög Alex Kurzem kom til Ástralíu árið 1949, þá fimmtán ára gamall, með ekkert nema litla brúna skjalatösku í fórum sínum, en burðaðist með minningar þyngri en tárum tóku. Þeim hélt hann leyndum fyrir ástralskri konu sinni og börnum allt fram til ársins 1997.

Í fyrstu trúðu þau ekki sögu hans, en sonur hans einsetti sér að komast að hinu sanna. Fréttavefur BBC greinir frá því að þeir feðgar ferðuðust á æskuslóðir Kurzems í Hvíta-Rússlandi og Lettlandi. Ótrúlega sögu Kurzems sem gyðingadrengs, sem varð lukkudýr nasistahersveitar og lifði þannig af hið grimmilega stríð á austurvígstöðvunum, hefur sonurinn nú fest á bók.

Saga Alex Kurzem - sem reyndar fæddist sem Ilja Galperin samkvæmt því sem þeir feðgar komust að - hefst þar sem hann fyrst man eftir sér, þá fimm eða sex ára að aldri, í þorpi nærri Minsk í Hvíta-Rússlandi þann 20. október 1941. Í kjölfar framrásar þýska hersins kom SS-sérsveit í þorpið með það verkefni að drepa alla íbúana, sem voru gyðingar. Að kvöldi dagsins sem allir karlmenn úr röðum þorpsbúa höfðu verið skotnir, sagði móðir Alex að morguninn eftir yrðu þau líka drepin.

Um nóttina ákvað Alex litli að flýja, kvaddi móður sína og hljóp út í skóg. Um morguninn varð hann vitni að því ofan úr tré hvernig móðir hans, systir og litli bróðir voru skotin og grafin í fjöldagröf. Hann hafði þá í engin hús að venda og lifði í skóginum mánuðum saman, borðaði ber og sníkti sér brauðbita á bæjum.

Eftir níu mánaða vergang var hann fenginn í hendur lögreglunnar, sem var lettnesk. Þessi lettneska lögreglusveit varð síðar að SS-sérsveit sem tók meðal annars þátt í fjöldamorðum á gyðingum. Einn liðsmaður lögreglusveitarinnar komst að því að drengurinn var umskorinn gyðingur en ákvað af einhverjum óræðum ástæðum að halda hlífisskildi yfir honum og sagði félögum sínum að stráksi væri rússneskur munaðarleysingi. Þar hjálpaði honum "arískt" útlit. Svo fór að drengurinn varð lukkudýr hersveitarinnar, fékk sérsniðinn SS-búning með byssu og ökklasíðum frakka. Hann var sýndur í þýskum stríðsfréttamyndum sem "yngsti nasisti Ríkisins". Hann fylgdi hersveitinni hvert sem hún fór og varð vitni að hræðilegum voðaverkum.

Árið 1944, þegar stríðslukkan var farin að snúast gegn Þjóðverjum, kom yfirmaður SS-sveitarinnar drengnum fyrir hjá lettneskri fjölskyldu og þannig lifði hann af stríðslokin. Og eins og áður segir flutti hann til Ástralíu árið 1949 og þagði eftir það í hálfa öld um ótrúlega æsku sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×