Erlent

Mótsagnir í málflutningi

Steven Jordan, undirofursti í Bandaríkjaher, hefur lent í mótsögnum í málsvörn sinni fyrir bandarískum herdómstól, þar sem fjallað er um hlut hans í misþyrmingum á föngum í hinu illræmda Abu Ghraib-fangelsi í Írak.

Jordan, sem er 51 árs, var yfirmaður nýstofnaðrar yfirheyrsludeildar fangelsisins haustið 2003, nokkrum mánuðum eftir að stríðið í Írak hófst. Hann er sakaður um að hafa ekki þjálfað undirmenn sína nægilega vel, ekki kynnt þeim reglur hersins um yfirheyrsluaðferðir og þar með mótað það andrúmsloft meðal fangavarðanna að heimilt væri að misþyrma föngunum með ýmsum hætti. Einnig er hann sakaður um að hafa án heimildar leyft notkun hunda við yfirheyrslur. Verði hann dæmdur sekur á hann yfir höfði sér fangelsisdóm upp á átta og hálft ár.

Lögfræðingar Jordans segja hann tvisvar hafa tilkynnt um brot undirmanna sinna, en svo þegar hann var spurður hvers vegna sumir fangar hafi verið hafðir naktir þá svaraði hann því til að það væri liður í yfirheyrsluaðferðum í fangelsinu.

Jordan er eini yfirmaðurinn sem hefur verið ákærður vegna misþyrminganna, og síðastur hinna ákærðu til að fara fyrir dóm. Ellefu hermenn hafa þegar verið dæmdir og hlaut einn þeirra, Charles Granier, tíu ára fangelsisdóm í janúar árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×