Íslenski boltinn

FH getur komið sér á réttan kjöl

FH og breiðablik Mættust fyrir stuttu en liðin verða í eldlínunni í kvöld.
fréttablaðið/anton
FH og breiðablik Mættust fyrir stuttu en liðin verða í eldlínunni í kvöld. fréttablaðið/anton

Í kvöld fara fram tveir leikir í Landsbankadeild karla. Íslandsmeistarar FH taka á móti Víkingum og Fram mætir Breiðabliki á Laugardalsvelli. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19.15.

FH tapaði stórt fyrir Val í síðustu umferð, 4-1, og getur með sigri í kvöld endurheimt fimm stiga forskot á toppi deildarinnar, um stundarsakir að minnsta kosti.

Magnús Gylfason, þjálfari Víkings, er þó hvergi banginn. „Þetta verður eðlilega erfitt en okkur líst vel á þennan leik rétt eins og alla aðra. Við verðum að taka okkur saman í andlitinu og fara að vinna leiki og mér finnst engin ástæða til annars en að byrja í þessum," sagði Magnús. Víkingar fengu aðeins eitt stig í júnímánuði, fæst allra liða í deildinni.

Fram vann sinn fyrsta leik í síðasta heimaleik sínum og í kvöld mætir það Blikum sem hefur unnið tvo heimaleiki í röð, báða 3-0.

„Fram kom sér í vinningsstöðu gegn KR í síðasta leik en töpuðu og eru því særðir. En við þurfum fyrst og fremst að hugsa um okkur og förum í leikinn til að vinna hann," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Blika. „Sjálfstraustið í liðinu er gott og sjáum við ákveðna möguleika á móti Fram sem við ætlum að nýta okkur. Ef við náum að gera það sem lagt er upp með er ég ekki hræddur."

Ólafur Þórðarson, þjálfari Fram, átti von á hörkuslag. „Ég hef séð Blikana spila og hafa þeir staðið sig vel. Úrslitin eru kannski ekki eins og þeir hafa sjálfir viljað hafa þau en Breiðablik er með það gott lið að það getur unnið öll lið í deildinni á góðum degi. Við sjálfir höfum verið klaufar að klára ekki nógu marga leiki en við bætum vonandi úr því."

- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×