Erlent

Sjö látnir eftir jarðskjálftann í Japan

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Vegir skemmdust og sprungur mynduðust í jarðskjálftanum.
Vegir skemmdust og sprungur mynduðust í jarðskjálftanum.
Að minnsta kosti sjö létust og 700 slösuðust þegar jarðskjálfti 6,8 á Richter skók norðvesturhluta Japan. Skjálftinn varð klukkan rúmlega eitt í nótt að íslenskum tíma. Almenningssamgöngur eru í lamasessi á svæðinu og átján þúsund heimili eru án rafmagns.

Jarðskjálftinn mældist 6,8 á Richter skalanum og jafnaði fleiri hundruð byggingar við jörðu. Fimm eldri borgarar létust þegar hús hrundu ofan á þá í Kashiwazaki sem varð einna verst úti í skjálftanum.

Byggingar í Tokyo skulfu verulega og slökkt var á kjarnakljúfum í kjarnorkuveri í varúðarskyni. Björgunarsveitir hafa unnið að því að leita fólks í rústum í allan dag.

Einn slasaðist þegar þak hrundi þar sem badminton keppni var um það að bil að hefjast, en farþegar lestar sem hrökk af sporunum sluppu hins vegar ómeiddir. Tvö hundruð þúsund manns voru fluttir frá heimilum þeirra í Kashiwazaki, sem varð einna verst úti í skjálftanum.

Viðvörun vegna flóðbylgju var gefin út, en hún síðan dregin til baka þegar í ljós kom að hún myndi aðeins verða hálfs meters há. Þá kviknaði eldur við rafstöð kjarnorkuvers en það slökkti á sér sjálfkrafa áður en nokkuð gerðist. Stjórnvöld segja enga hættu stafa frá kjarnorkuverinu og að það hafi ekki komið leki að því.

Shinzo Abe forsætisráðherra Japana flaug í morgun til þeirra svæða sem verst urðu úti í skjálftanum.

Skjálftinn skemmdi vegi og brýr og úr lofti mátti sjá gríðarmiklar sprungur sem mynduðust. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti var 5,6 á Richter en þeir ullu ekki manntjóni eða flóðbylgjum. Búist er við eftirskjálftum á svæðinu út vikuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×