Innlent

Ógnaði foreldrum sínum með hnífi

Oft kemur til átaka milli unglinga og foreldra en sjaldgæft er að vopnum sé beitt.
Oft kemur til átaka milli unglinga og foreldra en sjaldgæft er að vopnum sé beitt. MYND/Anton

„Þetta er ekkert einsdæmi en sem betur fer kemur það ekki oft fyrir að við þurfum að yfirbuga ungmenni í heimahúsum,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sextán ára piltur var handtekinn á heimili sínu í Breiðholti aðfaranótt þriðjudags þar sem hann gekk berserksgang og ógnaði foreldrum sínum með eldhúshnífi.

Foreldrarnir kölluðu eftir aðstoð laust fyrir miðnætti og voru lögreglumenn frá stoðdeild ríkislögreglustjóra sendir á vettvang. Þeir þurftu að beita varnarúða til að yfirbuga piltinn sem var undir áhrifum fíkniefna. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu. Að sögn Geirs Jóns er ekki ólíklegt að pilturinn verði ákærður. „Þetta er mjög alvarlegt mál enda hefðu menn verið í mikilli hættu hefði pilturinn beitt hnífnum,“ segir Geir Jón.

Málið heyrir undir barnaverndaryfirvöld vegna ungs aldurs pilts­ins. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir ekki óalgengt að til átaka komi milli unglinga og foreldra. Hins vegar sé afar sjaldgæft að gripið sé til vopna. „Við heyrum af svona málum af og til en ekki nema svona einu sinni á ári. Þetta eru alvarlegir atburðir sem benda til þess að eitthvað sé að og kalla á ákveðin viðbrögð frá barnaverndaryfirvöldum,“ segir Bragi.

Oftast koma vímuefni við sögu í málum sem þessu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×