Fótbolti

Alltaf minn fyrsti kostur að vera áfram hjá Celtic

Theodór Elmar Bjarnason var nýbúinn að skrifa undir framlengingu á samningi sínum við Celtic þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær. Samningurinn er til tveggja ára en Celtic getur bætt ári við hann kjósi félagið að gera það. Theodór var að verða samningslaus og höfðu mörg félög falist eftir kröftum hans.

„Þeir féllust á allt og voru ánægðir með mig í landsleikjunum sem þeir fylgdust með," sagði Theodór sem fékk launahækkun frá fyrrverandi samningi. „Ég get ekki annað en verið mjög sáttur með samninginn."

Þrátt fyrir áhuga annara liða, og þá staðreynd að Kjartan Henry Finnbogason mun fara frá félaginu, flaug það aldrei í hug Theodórs að flytja sig um set. „Ég var bara að bíða eftir því hvað þeir sögðu við samningstilboðinu okkar. Þegar þeir samþykktu það kom ekki annað til greina en að skrifa undir og vera áfram í Skotlandi. Celtic var alltaf minn fyrsti kostur," sagði Theodór sem setur markið hátt.



„Ég hef sett mér það markmið að festa mig í sessi í liðinu og spila sem mest. Vonandi fæ ég nægan leiktíma og mig langar mjög mikið til að spila í Meistaradeildinni, sem og öðru auðvitað."

Celtic vann tvöfalt í Skotlandi í ár en líklegt er að félagið kaupi til sín nokkra leikmenn í sumar, auk þess sem nokkrir hverfa á braut. „Félag eins og Celtic leitast alltaf eftir því að styrkja hópinn. Hjá svona stóru félaginu eru alltaf einhverjir sem koma og fara. Það verður næg samkeppni en það fylgir því að vera í stórliði," sagði Theodór sem fer til æfinga hjá Celtic þann 2.júlí þegar liðið kemur til æfinga eftir sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×