Íslenski boltinn

Lítill áhugi hjá feitustu bitunum

Það er óneitanlega farið að hitna undir Teiti Þórðarsyni.
Það er óneitanlega farið að hitna undir Teiti Þórðarsyni. fréttablaðið//valli

Teitur Þórðarson situr á heitasta stólnum þegar staðan í Landsbankadeild karla er skoðuð. Vesturbæjarrisinn blundar vært á botni deildarinnar og háværar raddir heyrast nú um að nóg sé komið.

Teitur er samningsbundinn KR til 2010 en óneitanlega er Teitur farinn að finna fyrir óánægju á meðal stuðningsmanna KR sem vænta meira af sínu liði. Fréttablaðið kannaði hug fjögurra þjálfara sem liggja beinast við því að taka við hinni hratt sökkvandi skútu ef stjórn KR ákveður að skipta um mann í brúnni.

Atli Eðvaldsson stýrði KR til fyrsta Íslandsmeistaratitils félagsins í háa herrans tíð árið 1999 áður en hann tók við íslenska landsliðinu. „Ég hef hug á að fara aftur út í þjálfun en ég held að það séu litlir möguleikar á því að ég færi til KR, í það minnsta meðan núverandi stjórn er við lýði. Auk þess held ég að KR muni halda í Teit áfram," sagði Atli við Fréttablaðið í gær.

Pétur Pétursson lék um árabil með KR-ingum og þjálfaði liðið árið 2000. Hann gerði liðið að Íslandsmeisturum það ár. „Teitur er þjálfari KR og mér finnst að það eigi að styðja við bakið á honum, annað hef ég ekki um málið að segja," sagði Pétur sem nú þjálfar 2. flokk Breiðabliks.



Logi Ólafsson hefur ekki þjálfað félagslið eftir að hann hætti með íslenska landsliðið á síðasta ári en hann hefur meðal annars þjálfað Víking, sem hann gerði að Íslandsmeisturum, ÍA og FH. „Ég ákvað að þjálfa ekki félagslið á þessu ári og hef ekkert velt því fyrir mér. Ef KR hefur samband hef ég ekkert velt því fyrir mér hverju ég myndi svara," sagði Logi.

Heimir Guðjónsson er uppalinn hjá KR en er í dag aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar hjá FH. „Ef KR myndi hringja í dag myndi ég segja nei af því ég er að þjálfa hjá FH," sagði Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×