Enski boltinn

Beckham spáir þrennu hjá Manchester United

David Beckham bindur miklar vonir við lið United á þessari leiktíð
David Beckham bindur miklar vonir við lið United á þessari leiktíð NordicPhotos/GettyImages

David Beckham hjá Real Madrid segir að fyrrum félagar hans í Manchester United hafi það sem til þarf til að endurtaka þrennuna glæsilegu frá því árið 1999 þegar liðið vann sigur í deild, bikar og Meistaradeildinni.

United tryggði sér í gær sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær, er í góðri stöðu í enska bikarnum og hefur gott forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Beckham var í liði United sem vann þessa glæsilegu þrennu árið 1999 og segir liðið geta farið alla leið á þessu ári.

"Ég sé United alveg fara alla leið í hverri keppni. Ég hef séð hve vel þeir spila, hvað liðið er þétt og hvað menn vinna vel hver fyrir annan. Ég veit auðvitað ekki hvernig andinn er í liðinu af eigin reynslu, en ég er í reglulegu sambandi við Gary Neville og liðið hefur verið frábært í allan vetur.

United hefur styrk og dýpt til að fara langt og stuðningsmennirnir eru stoltir af því að sjá leikmennina spila svona vel fyrir félagið. Liðið virðist líka hafa nauðsynlegt hungur í að ná langt," sagði Beckham og bætir því við að margt sé í raun líkt með liði United í ár og því sem vann þrennuna árið 1999.

Það sem við lentum í á því tímabili er mjög svipað og liðið í ár hefur gengið í gegn um. Þar vorum við að spila mjög vel á köflum, en unnum líka nokkra mjög erfiða leiki 1-0 þar sem við höfðum heppnina kannski með okkur. Það er að mínu mati ekki hægt að upplifa betri tilfinningu en við upplifðum þegar þrennan var í höfn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×