Fótbolti

Engin skrautsýning í Víkinni

Í strangri gæslu Ásgrímur Albertsson úr HK var besti maður vallarsins í gær. Hér er hann með Víkinginn Egil Atlason í fanginu.
Í strangri gæslu Ásgrímur Albertsson úr HK var besti maður vallarsins í gær. Hér er hann með Víkinginn Egil Atlason í fanginu. MYND/Daníel

Nýliðar HK fengu sitt fyrsta stig í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í gær eftir litlaust jafntefli við Víkinga á útivelli. Gestirnir voru sprækari í fyrri hálfleik en Víkingar voru líklegri til að ná sigurmarkinu undir lok síðari hálfleiks.

Leikurinn byrjaði þokkalega og voru það gestirnir sem voru sprækari. Þeir fengu tvö ágæt færi snemma leiks en Bjarni Þórður Halldórsson var vel á verði. Besta færið í fyrri hálfleik kom þó á 21. mínútu er Oliver Jäger átti skalla í slá eftir frábæra fyrirgjöf Kristjáns Ara Halldórssonar.

Leikaðferð HK gekk út á að verjast aftarlega á vellinum en beita svo skyndisóknum. Svo sem skynsamleg aðferð á útivelli sem gekk ágætlega upp. HK-ingar voru fljótir að refsa fyrir mistök í sóknarleik Víkinga sem máttu þakka fyrir að hafa haldið hreinu í fyrri hálfleik.

Frammistaða liðanna í síðari hálfleik voru gríðarleg vonbrigði. Það var ekki fyrr en undir lok leiksins að varamaðurinn Björn Viðar Ásbjörnsson fékk gullið tækifæri til að skora sigurmarkið. Hann fékk boltann á fjærstönginni, einn og óvaldaður, en hitti boltann illa og Gunnleifur greip inn í. Björn Viðar náði öðru skoti að marki skömmu síðar en boltinn fór framhjá.

Ólafur Júlíusson, varamaður HK, hafði besta færi sinna manna undir lokin er hann átti skalla að marki eftir hornspyrnu.

Ásgrímur Albertsson, varnarmaður HK, átti engar skýringar á því af hverju hans menn voru svo daufir í síðari hálfleik.

„Nei, leikurinn þróaðist bara þannig. Ég var ánægður með okkar leik, skipulagið á okkar leik var gott og við vörðumst vel. Við gáfum kannski eftir undir lokin en í heildina fannst mér við hættulegri."

Hann var þó ánægður með stigið í frumraun HK. „Við hefðum viljað vinna en sættum okkur við þetta."

Af frammistöðu liðanna að dæma er ljóst að þau munu eiga í vandræðum í sumar. Liðin skorti allt frumkvæði og leikmönnum tókst afar sjaldan að gera sér mat úr sóknum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×