Fótbolti

Fylkir stal öllum stigunum

Fylkis Fjalar Þorgeirsson, markvörður Fylkis sést hér í kröppum dansi en fremstur á myndinni er Blikinn Prince Rajcomar sem fékk rauða spjaldið á 35. mínútu.
Fylkis Fjalar Þorgeirsson, markvörður Fylkis sést hér í kröppum dansi en fremstur á myndinni er Blikinn Prince Rajcomar sem fékk rauða spjaldið á 35. mínútu. MYND/Vilhelm

Árbæingar voru brosmildir á Kópavogsvelli í gærkvöld. Það ekki að ástæðulausu þar sem þeir nældu í þrjú mikilvæg stig gegn Blikum þrátt fyrir að geta lítið í leiknum og skapa sér sama og ekki neitt. Blikar voru manni færri lungann úr leiknum en voru samt betri en Fylkismenn sem vörðust vel.

Fyrri hálfleikur var tilþrifalítill en þó var hart tekist á og ekki gefin tomma eftir. Blikar byrjuðu leikinn mikið mun betur og náðu yfirráðum á miðjunni þar sem miðjupar Fylkis Valur Fannar og Mads - voru arfaslakir.

Vörn Fylkis var ekki mikið betri en mikill vandræðagangur var á varnarlínu Fylkis og til að bæta gráu ofan á svart var Fjalar í tómu tjóni fyrir aftan og hélt varla einum bolta. Það átti eftir að lagast mikið.

Blikum tókst ekki að nýta sér yfirburði sína og gátu sjálfum sér um kennt að leiða ekki í hálfleik. Blikar voru meira að segja betri eftir að þeir misstu Prince af velli fyrir atvik sem gerðist fjarri bolta og undirritaður sá ekki. Hann er talinn hafa gefið olnbogaskot.

Blikar voru áfram betri í upphafi síðari hálfleiks. Þeir sóttu hart að marki Fylkis á 55.mínútu, voru nærri því að skora en þá brunuðu Fylkismenn upp í hraðaupphlaup. Christiansen hristi af sér varnarmann, hljóp framhjá Hjörvari markverði og skoraði í tómt markið. 0-1 fyrir Fylki.

Blikar héldu áfram að stýra umferðinni eftir markið en gekk bölvanlegaa að skapa sér opin marktækifæri. Það var ekki fyrr en Gunnar Örn Jónsson kom af bekknum um miðjan hálfleik sem eitthvað púður kom í sóknirnar.

Fylkismenn fögnuðu að vonum vel í lokin en þeir verða að bæta leik sinn mikið ætli þeir sér að gera einhverja hluti. Þeir fá tæplega fleiri gefins stig. Blikar geta borið höfuðið hátt, voru fínir í vörn, þéttir á miðju en vantaði kraft á seinasta þriðjungi vallarins og ekki nema von þar sem þeir voru manni færri.



Ekki kátur. Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Blika var drullusvektur í lokin. MYND/Vilhelm

Ég er drullusvekktur með úrslitin en ánægður með spilamennskuna. Við vorum manni færri lengi í leiknum og það sást ekki. Þetta var meira en meðalgóður leikur hjá okkur," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. „Við sköpuðum ekkert minna en Fylkir og áttum að klára okkar færi betur. Það var meira að gera hjá Fjalari en Hjörvari. Við áttum meira skilið í þessum leik en svona er þetta stundum."

Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis, var himinlifandi. „Við komum hér í fyrra, yfirspiluðum Breiðablik en fengum núll stig. Þess vegna er ég himinlifandi með úrslitin hér í dag. Þetta var svona „play ugly and win"," sagði Leifur léttur.

„Mér fannst við ekki rétt stemmdir í byrjun og menn eitthvað stressaðir. Við vorum í vandræðum með að spila boltanum í þessum leik og þetta gekk erfiðar en við ætluðum okkur. Við tökum samt stigin fegins hendi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×