Fótbolti

Væri að ljúga ef ég segði leikinn ekki sérstakan

Leikur ÍA og FH í dag er sérstakur fyrir þær sakir að tvíburabræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir snúa aftur á sínar heimaslóðir í sínum fyrsta deildarleik með FH. Bræðurnir gengu til liðs við Hafnfirðinga í haust eftir að hafa bjargað ÍA frá falli síðastliðið sumar sem spilandi þjálfarar.

„Já, þetta verður örugglega hörkuleikur,“ sagði Arnar. „Það verður skrítið fyrir okkur að spila þarna eftir að hafa verið með ÍA síðasta sumar. En ég held að það sé fínt að byrja tímabilið þar, við erum allavega mjög spenntir fyrir þessum leik. Lið sem ætlar sér að verða Íslandsmeistari verður að ná góðum úrslitum upp á Skaga. Það er prófsteinn á getu liðanna.“

Hann býst við góðum viðtökum á leiknum í dag þó svo að hann muni nú klæðast nýjum búningi. „Ætli við eigum það ekki skilið,“ sagði hann og hló mikið. „En við munum auðvitað gefa allt okkar til að vinnan þennan leik, ég held að það skilji allir. Ég væri nú samt að ljúga ef þetta væri ekki sérstakur leikur fyrir okkur,“ sagði Arnar.

Þeir bræður hafa mátt glíma við mikil meiðsli í gegnum tíðina en koma nú heilir eftir undirbúningstímabililð. „Við höfum verið að æfa rétt og getum þakkað fyrir að eiga skilningsríkan þjálfara. Hann gerir sér grein fyrir því að við getum ekki verið með á öllum æfingum og við höfum fengið að hvíla okkur þegar við höfum þurft á því að halda. Það skiptir máli á þessum aldri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×