Íslenski boltinn

Sanngjarn sigur FH á Keflavík

Þeir Daði Lárusson, Tryggvi Guðmundsson og Sigurvin Ólafsson hlaupa hér sigurhring með bikarinn í gær.
Þeir Daði Lárusson, Tryggvi Guðmundsson og Sigurvin Ólafsson hlaupa hér sigurhring með bikarinn í gær. fréttablaðið/hörður

Íslandsmeistarar FH unnu sanngjarnan sigur á bikarmeisturum Keflavíkur í hinni árlegu Meistarakeppni KSÍ. Það var Bjarki Gunnlaugsson sem skoraði eina mark leiksins á 18. mínútu leiksins. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ekkert sérstakar á frjálsíþróttavellinum í Krikanu í gær. Nokkur vindur gerði leikmönnum erfitt fyrir en eftir að leikmenn höfðu vanist aðstæðum mátti sjá góð tilþrif.

Flest voru þau FH-inga sem réðu lögum og lofum á vellinum og voru klaufar að skora ekki fleiri mörk í leiknum. Miðju- og sóknarleikur Keflavíkur var máttlítill lengstum en með smá heppni hefði Keflavík getað knúið fram framlengingu undir lokin er þeir settu FH undir smá pressu.

FH-liðið lítur vel út fyrir sumarið og erfitt að sjá á þessum tímapunkti hvernig stöðva eigi liðið. Þeir eru ógnarsterkir og tilkoma tvíburanna Arnars og Bjarka hefur hleypt enn frekara lífi í sóknarleikinn og Matthías Guðmundsson ógnar einnig mikið með hraða sínum.

Keflavíkurliðið lítur einnig ágætlega út og það hefur ekkert breyst þar á bæ að menn reyna að spila fótbolta í stað þess að kýla boltanum fram. - hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×