Erlent

Friðargæsluliði svarar fyrir sig

Klemens Þrastarson skrifar
Ingi þór segir það starf sem íslenska friðargæslan innir af hendi á Kabúl-flugvelli grundvöll til að hægt sé að senda aðra aðstoð til Afganistans og koma henni til skila.
Ingi þór segir það starf sem íslenska friðargæslan innir af hendi á Kabúl-flugvelli grundvöll til að hægt sé að senda aðra aðstoð til Afganistans og koma henni til skila. Fréttablaðið/Klemens

Allt frá því að sprengjuárás varð í teppabúð í Afganistan árið 2004 og heimildarmynd um störf friðargæslunnar í landinu var frumsýnd skömmu síðar, hefur aðgangur fjölmiðla að starfinu í Kabúl verið lítill. Fréttablaðið heimsótti friðargæsluna í Afganistan og ræddi við Inga Þór Þorgrímsson, forsvarsmann Íslendinga við stjórnun flugvallarins í Kabúl.

„Það eru margir heima á Íslandi sem telja skipta meira máli í hvernig búningum við göngum og hvaða verndartól við göngum með en hvaða starf við innum af hendi,“ segir Ingi þegar við hefjum spjallið. 

Vopnaburður friðargæslunnar hefur verið alræmdur og sérstaklega eftir að Íslendingar fóru í teppabúð með alvæpni og tveir Afganar létu lífið, þegar sjálfsmorðssprengjumaður gerði árás. Ingi þvertekur fyrir að þeir hafi beðið bana út af ábyrgðarleysi og „hermennskutilburðum“ friðargæslumanna. 

„Þegar þetta gerðist fóru menn hér af vellinum oft niður í bæ. Þá var hættustigið talið mjög lágt og engin svona árás hafði átt sér stað áður. Það er hluti af friðargæslu að blanda geði við heimamenn. Fólk, sem hafði enga innsýn í málið, dæmdi þá sem lentu í þessu þannig að þeir hafi verið þarna að leggja líf sitt að veði í teppakaupum. Fjölmiðlar kusu að rangtúlka þennan atburð, frekar en að rannsaka hann,“ segir hann.

Ingi Þór segir að hættustigið í Kabúl hafi verið lágt þegar íslenskir friðargæsluliðar lentu í sprengjutilræði í Kjúklingastræti. Fréttablaðið/Klemens

Íslenska sveitin

Ingi telur að störf og verkefni friðargæslunnar hefði mátt kynna betur til fjölmiðla, til að koma í veg fyrir háværa umfjöllun. 

„En það sem mér finnst sorglegast er að þeir fréttamenn, sem helst hafa tekið að sér að kynna þessi verkefni, þeir jafnvel blekktu menn um tilgang fararinnar, til þess að fá upplýsingar sem síðan voru rangtúlkaðar og gáfu ranga mynd af starfinu. Friðargæslan fékk aldrei að njóta sannmælis.“ Ingi segir heimildarmyndina sem gerð var um friðargæsluna „skammarlega“. 

Fólk heldur að ég sé með geltandi vélbyssu uppi í fjalli að skjóta mann og annan frá níu til fimm. En í grunninn er þetta ósköp svipað starf og þegar ég var rekstrarstjóri suður í Keflavík. 

„Ég hef til dæmis aldrei þurft að grípa til vopna, þótt ég hafi gengið um vopnaður í þrjú ár.“ Vopnaburður kemur starfinu alls ekki við, segir Ingi. 

Hins vegar er hann nauðsynlegur í ótryggu umhverfi eins og í Afganistan. „Ef eitthvað kemur fyrir þá er betra að ég sé vopnaður. Í Afganistan hefur einn Íslendingur látið lífið, vissirðu það? Það var hjúkrunarfræðingur á vegum Rauða krossins. Hann var óvopnaður. Það er einfaldlega frekar ráðist á óvopnað fólk hér og það er staðreynd.“

Vanhugsuð þróunaraðstoð?

Því hefur verið haldið fram að til þróunaraðstoðar skilaði meiri árangri að láta fé af hendi rakna til góðgerðarstarfsemi, en að vera með friðargæslu. Ingi segir þetta sjónarmið fremur vanhugsað. „Staðreyndin er sú að friðargæslan og það starf sem við vinnum hér á Kabúl-flugvelli, er grundvöllur þess að hægt sé að senda aðstoð og koma henni til skila. Allar samgöngur hér byggjast á þessum velli. Það er engin leið að koma mat eða fötum á endastöð án flugvallarins. Þegar Íslendingar komu hingað fyrst, þá stóð flugvöllurinn ekki undir þessu. Því er það gífurlega mikilvægt uppyggingar- og hjálparstarf að halda þessari lífæð opinni.“ 

Framlag Íslendinga er einungis dropi í hafið á flugvellinum í Kabúl. Ingi telur að hlutfallslega skili friðargæslan afar góðu starfi og upphæðin skipti ekki höfuðmáli. 

„Ég held að það sé aldrei hægt að meta hjálparstarf bara í krónum og aurum eða mannfjölda. Mælikvarðinn er alltaf hvernig þetta skilar sér á leiðarenda. Það er hægt að leggja mikinn pening í aðstoð og hún skilar sér illa. Svo er hægt að leggja lítinn pening og hann skilar sér vel. Það sem Íslendingar eru að gera hér hefur skilað sér mjög vel. Það sem skiptir höfuðmáli er að það er að skila sér til langtímauppbyggingar sem mun nýtast þjóðinni sem við erum komin til að hjálpa. Upphæðin verður alltaf umdeilanleg, en henni þarf að vera vel varið til góðra verka, þannig að við höfum sáð til framtíðar en ekki verið með tímabundið verkjalyf.”

Umdeilt erindi Íslendinga

Fyrr í vikunni varð blaðamaður vitni af því þegar bandarískur kafteinn leitaði til Inga vegna starfs sem þurfti að vinna til að koma framkvæmdum af stað. Vandinn var sá að starfið var utan vinnuáætlunar. Ingi ráðlagði honum að hliðra til í áætlunum, án þess að brjóta reglur beinlínis, og ráða heimamenn til framkvæmdarinnar fyrir lítið fé. Nokkurn tíma tók að útskýra fyrir kafteininum að þetta væri hægt. Ingi segir að svona reddingar séu í karakter Íslendinga, þegar hann er spurður hvort aðrar þjóðir en Íslendingar séu ekki betur til þess fallnar að reka flugvöll í Kabúl. 

„Lítið samfélag eins og Ísland gerir menn að mörgu leyti hæfari til að koma að svona rekstri, því heima eru menn vanari að vinna á fleiri en einu sviði og geta bjargað sér. Að redda því sem þarf að redda. Þegar lítið er til af tækjum og búnaði og takmörkuð úrræði til að vinna úr, þá eru þeir sem eru vanir að vinna á mörgum sviðum betur settir en til dæmis margir nágrannar okkar. Þar er vinnureynsla og verksvið hvers og eins mun þrengri en hjá okkur. Þetta skilar sér því mjög vel í svona starfi.“

Flugvöllurinn í Kabúl er helsta lífæð Afganistan. Landið liggur ekki að sjó og torfært fjallendið hamlar flutningum með bílum. Vonast er til að Afganir taki endanlega við stjórn vallarins á næstu árum.Fréttablaðið/Klemens

7.000 kílómetra að heiman

„Fjölskyldulífið er vissulega slitið í tvennt. Mesta fórnin er að vera fjarri og missa af lífi sinnar fjölskyldu. Að vera 7.000 kílómetra að heiman hefur náttúrulega áhrif á fjölskyldulífið, því er ekki að neita. Svona starf getur enginn tekið að sér nema í sátt við sína fjölskyldu. Það er ekki bara fórn okkar að koma hingað út, heldur fórn þeirra sem eru heima að taka á sig aukna ábyrgð. Makar, sérstaklega, þurfa að taka við öllu búnu þegar við sem erum hér erum ekki til staðar.“ 

„En að vinna við svona uppbyggingu er mjög gefandi. Ég hef aldrei fengið annað en blíðar móttökur og þegar maður kemur aftur hingað út eftir brottveru þá er manni fagnað eins og ættingja. Þannig finnst manni maður vera að skila miklu meira en í vinnu þar sem maður stimplar sig bara inn og út. Þetta er hugsjón og það verður að vera hugsjón hjá þeim sem eru að gefa sig í þetta. Þeir verða að gera það af alefli og af sannri trú fyrir starfinu. Ef þú ert hér bara í vinnu þá er erfitt að réttlæta þessa fjarveru frá fjölskyldu og vinum.“

Íslenska friðargæslan

  • Íslensku friðargæslunni var komið á fót í núverandi mynd árið 2001.
  • Verkefnið olli nokkrum deilum, sökum hernaðarlegrar umgjarðar, svo sem búninga og titla, en ekki síst vopnaburðar.
  • Starfsemi friðargæslu var endurskoðuð árið 2006 og utanríkisráðherra kynnti þá breyttar áherslur hennar.
  • Í nýjum lögum er sérstaklega tekið fram að verkefnaval verði borgaralegs eðlis og ásýnd gæslunnar „mýkri“. Ráðherra leggur og áherslu á aukinn hlut kvenna.
  • Undir hatti friðargæslunnar starfa nú alls 33 starfsmenn, utan þriggja í ráðuneytinu heima. Sextán eru í Afganistan á vegum NATO/ISAF, ellefu á Srí Lanka hjá SLMM, norrænu eftirlitssveitinni, einn í Írak á vegum NATO, annar í Serbíu með UNIFEM, einn í Bosníu með EUPM, löggæsluverkefni Evrópusambandsins, og þrír eru í Líbanon við jarðsprengjuleit.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×