Erlent

Íslendingar taki við ábyrgðinni

Ratsjárstöðin á Stokksnesi. Íslendingar og Bandaríkjamenn eru byrjaðir að ræða framtíðarfyrirkomulag á rekstri ratsjárkerfisins.
Ratsjárstöðin á Stokksnesi. Íslendingar og Bandaríkjamenn eru byrjaðir að ræða framtíðarfyrirkomulag á rekstri ratsjárkerfisins.

Viðræður við Bandaríkjamenn um hvað taka skuli við þegar fjármögnun þeirra á rekstri Íslenska loftvarnakerfisins (IADS) sleppir í ágúst næstkomandi hófust í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel í gær.

Það er Ratsjárstofnun sem annast rekstur kerfisins, sem er hluti af loftvarnakerfi NATO, en í því felst að verkefnið er hernaðarlegs eðlis. Jón Egill Egilsson, forstöðumaður varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem ásamt Jörundi Valtýssyni af skrifstofu utanríkisráðherra fór fyrir íslensku sendinefndinni í viðræðunum, tjáði Fréttablaðinu að fundurinn hefði verið á mjög jákvæðum nótum.

Af Bandaríkjanna hálfu sátu fundinn fulltrúar úr varnarmálaráðuneytinu í Washington. Að sögn Jóns Egils voru báðir aðilar sammála og samstiga um að vinna áfram að málinu með uppbyggilegum hætti. Til að byrja með sé viðfangsefni viðræðnanna að greina hvern þátt rekstrarins og hvernig því verður komið í kring að Íslendingar taki við ábyrgð á hverjum þeirra. Ákveðið var að halda viðræðunum fljótlega áfram, en óákveðið er þó hvar og hvenær næsti fundur fer fram. Viðræður um málið verða einnig teknar upp á vettvangi NATO fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×