Erlent

Alþjóðalög vernda engan

Vladimir Putin Rússlandsforseti var harðorður í garð bandarískra stjórnvalda og gagnrýndi utanríkisstefnu þeirra.
Vladimir Putin Rússlandsforseti var harðorður í garð bandarískra stjórnvalda og gagnrýndi utanríkisstefnu þeirra. MYND/AP

Helstu sérfræðingar heims í varnarmálum komu saman á árlegri ráðstefnu um öryggismál í München um helgina, þar á meðal Ali Larijani, helsti samningamaður Írana í kjarnorkudeilunni. Viðstaddir voru um 250 manns, þar af 40 varnar- og utanríkisráðherrar.

Vladimir Putin, forseti Rússlands, var gagnrýninn í ræðu sinni á fundinum. „Eitt ríki, Bandaríkin, hefur vaðið yfir landamæri sín á allan hátt. Þetta er gríðarlega hættulegt, enginn getur verið öruggur lengur því að alþjóðalög eru virt að vettugi,“ sagði Putin. „Þetta veldur vopnakapphlaupi, því að þjóðir vilja koma sér upp kjarnorkuvopnum.“

Forsetinn gagnrýndi einnig áætlanir Bandaríkjanna um að koma upp eldflaugavarnarkerfi í austurhluta Evrópu, líklega Póllandi og Tékklandi.

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Jaap de Hoop Scheffer lýsti yfir vonbrigðum sínum vegna ummæla Putins. „Hver getur verið áhyggjufullur með að lýðræði og löggæsla nálgist landamæri þeirra?“ sagði Scheffer á fundinum.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði á fundinum að Íranar yrðu að lúta þeim kröfum sem Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða kjarnorkumálastofnunin hafa gert til kjarnorkuáætlana þeirra.

„Við erum að tala um mjög viðkvæma tækni og þess vegna þurfum við gríðarlegt gegnsæi, sem Írönum hefur ekki tekist að stuðla að. Ef Íranar gera það ekki munu þeir einangrast enn frekar,“ sagði Merkel.

Merkel sagði einnig vera mikilvægt að Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið tækju höndum saman til að koma á friði í Afganistan. Einnig þyrfti samstillt alþjóðlegt átak í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum.

Sjálfstæðisbarátta Kosovohéraðs í Serbíu var einnig til umræðu á fundinum. Putin sagði Rússa ekki geta stutt áætlun um sjálfstæði Kosovo héraðs sem Serbar væru ósammála. Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain sagðist óánægður með að Rússar legðust gegn áætluninni.

Á annað þúsund manns mótmæltu á meðan fundurinn stóð og fóru mótmælin að mestu friðsamlega fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×