Erlent

Demókratar leita nýrra leiða

Demókratar ganga af blaðamannafundi. Leiðtogar demókrata í öldungadeildinni voru heldur hnípnir á mánudagskvöldið.
Demókratar ganga af blaðamannafundi. Leiðtogar demókrata í öldungadeildinni voru heldur hnípnir á mánudagskvöldið. MYND/AP

Demókratar á Bandaríkjaþingi boða langar og ítarlegar umræður um Írakstríðið í öldungadeildinni þrátt fyrir að andstæðingum þeirra hafi á mánudag tekist að koma í veg fyrir umræður um þingsályktunartillögu um málið.

„Við verðum að virða niðurstöður kosninganna í nóvember og óskir bandarísku þjóðarinnar,“ sagði demókratinn Harry Reid, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, á mánudagskvöldið.

„Forsetinn verður að heyra frá þinginu til þess að hann geri sér grein fyrir að hann sé á röngum stað - einn á báti,“ bætti Reid síðan við í gær.

Demókratar hafa meirihluta í öldungadeildinni og ætluðu sér að fá þar samþykkta þingsályktunartillögu, sem að vísu væri ekki bindandi fyrir George W. Bush forseta, en lýsti ótvírætt andstöðu deildarinnar við að fjölgað verði í bandaríska herliðinu í Írak.

Einungis 49 þingmenn greiddu þó atkvæði með því að ályktunin kæmi til umræðu á þinginu, en 60 atkvæði hefði þurft til þess að hún yrði tekin fyrir.

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í deildinni, sagði hins vegar að repúblikanar vilji ólmir fá að ræða málið. Þeir vilji aðeins að önnur tillaga um málið fái jafn mikla umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×