Erlent

Palestínumenn mótmæla af hörku

Jarðýta við Musterishæðina
Umdeildar framkvæmdir hófust í gær.
Jarðýta við Musterishæðina Umdeildar framkvæmdir hófust í gær. MYND/AP

Tugir lögreglumanna fylgdust með þegar ísraelskri jarðýtu var ekið upp að múrum musterishæðarinnar í Jerúsalem þar sem fornleifagröftur hefur staðið yfir.

Til stendur að endurnýja göngubrú sem komin var að hruni og á þeim framkvæmdum að ljúka á átta mánuðum.

Arabaheimurinn hefur fordæmt þessar framkvæmdir og leiðtogar Palestínumanna mótmæltu þeim harðlega vegna hættu á því að óbætanlegar skemmdir verði unnar á hinum helga stað.

Ísraelsk stjórnvöld segja framkvæmdirnar nauðsynlegar, unnið hafi verið að undirbúningi í nokkrar vikur og engin hætta sé á skemmdum á fornum mannvirkjum.

Engu að síður kom til átaka milli Palestínumanna og ísraelskra öryggissveita á nokkrum stöðum í Jerúsalem og á Vesturbakkanum í gær.

Á hæðinni stendur ein af helgustu moskum múslima, Al Aksa moskan, þar sem múslimar telja að Múhameð spámaður hafi stigið til himna. Þarna stóðu einnig musteri gyðinga áður en moskan var byggð og í Biblíunni segir frá því að þaðan hafi Jesús rekið kaupmennina út á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×