Erlent

Þriðja tilraunin til að lægja ófrið í Írak

Íraskur hershöfðingi tók yfir stjórn á öryggisgæslu í Bagdad og írösk lögregla og hermenn mönnuðu nýja vegatálma á mánudaginn. Þetta eru fyrstu skrefin í sameiginlegri aðgerð Íraka og Bandaríkjamanna sem miðar að því að koma böndum á blóðsúthellingar milli trúarhópa í landinu.

Þetta er þriðja tilraunin á níu mánuðum til að lægja ófriðaröldur í Bagdad.

Tvær fyrri öryggisaðgerðir mistókust og Bandaríkin kenndu íröskum stjórnvöldum um að standa ekki við að koma með þann mannafla sem þau höfðu lofað.

Forsætisráðherra Íraks, Nouri al-Maliki, tilkynnti þessa nýjustu áætlun 6. janúar síðastiðinn og forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, lýsti sinni sýn á hana 11. janúar. Gert er ráð fyrir allt að 90.000 bandarískum og íröskum hermönnum auk íraskra lögreglumanna í áætluninni.

Lengi hefur verið beðið eftir að þessari áætlun verði hrint í framkvæmd og gagrýnendur hafa sagt biðina hafa verið of langa. Al-Maliki viðurkenndi í gær að aðgerðin færi hægt af stað. „Aðgerðirnar munu sameina okkur og við munum grípa til aðgerða bráðlega, með Guðs vilja, jafnvel þótt ég hafi á tilfinningunni að við séum sein og að þessi seinkun sé farin að senda út neikvæð skilaboð."

Heimildarmaður í innanríkisráðuneyti Íraks sagði á sunnudag að í seinustu viku einni hefðu í kringum eitt þúsund Írakar látist: borgarar, öryggissveitarmenn og vígamenn. Samkvæmt tölum sem AP fréttastofan safnaði saman frá lögreglu og úr yfirlýsingum stjórnvalda létust 911 manns í vikunni 28. janúar til 4. febrúar. Þar af létust 137 manns í einni sprengingu á laugardaginn sem er mannskæðasta staka sprengingin síðan stríðið hófst fyrir tæpum fjórum árum.

Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum urðu samtals 34.452 borgarar fórnarlömb átaka á götum Bagdad árið 2006.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×