Erlent

Stór svæði Jakarta undir vatni

Mægður í vatni upp að mitti. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa þegar hafið leit að hverjum beri að kenna um afleiðingar flóðanna.
Mægður í vatni upp að mitti. Stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa þegar hafið leit að hverjum beri að kenna um afleiðingar flóðanna. MYND/AFP

Stór svæði tólf milljón manna höfuðborgar Indónesíu, Jakarta, voru undir mittisháu vatni í gær eftir að ár flæddu yfir bakka sína vegna úrhellisrigninga undanfarna daga. Að minnsta kosti 29 hafa látist, flestir vegna drukknunar og raflosts. Talið er að um 340.000 manns hafi þurft að flýja heimili sín.

Stjórnvöld sendu heilbrigðisstarfsmenn og fleka úr gúmmíi þangað sem ástandið var verst. Óttast er að sjúkdómar brjótist út meðal íbúa vegna skorts á hreinlæti og takmarkaðs aðgengis að drykkjarvatni. „Við vitum að það er erfitt fyrir íbúana [að halda sér hreinum] við þessar aðstæður, en þeir verða að gera það,“ sagði heilbrigðisráðherra Indónesíu, Siti Fadilah Supari.

Talið er að á milli 40 og 70 prósent af borginni, sem nær yfir 660 ferkílómetra svæði, hafi farið undir vatn.

Reglulega flæðir Jakarta þó flóðin nú séu mun meiri en venjulega. Mörg fátækrahverfi skammt frá árbökkum skolast burtu á hverju ári í flóðum. Íbúar annað hvort neita að flytjast burt eða eru of fátækir til að fara.

Veðurstofa Indónesíu spáir áframhaldandi rigningu næstu tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×