Erlent

Skjóta aftur að mótmælendum í Mjanmar

Blóðugir sandalar á götu eftir mótmælin í gær.
Blóðugir sandalar á götu eftir mótmælin í gær. MYND/AFP

Hermenn skutu aftur að nokkur hundruð syngjandi mótmælendum í miðborg Yangon í Mjanmar í dag. Fólkið forðaði sér í skjól en engir munkar voru meðal mótmælenda. Öryggissveitir hafa lokað götum og fimm klaustrum með vegriðum og gaddavír. Þannig virðist þeim hafa tekist að halda munkunum frá. Almenningi tekst þó að koma saman í stuttan tíma áður en öryggislögreglan leysir mótmælin upp.

Fjölmiðlar í landinu segja að níu manns hafi látist í gær þegar herinn skaut táragasi og byssukúlum að mótmælendum til að brjóta upp mótmælin í Rangoon. Sendiherra Ástralíu í landinu segir töluna mun hærri. Íbúar segja andrúmsloftið hlaðið spennu og ótti einkenni fólk á götum úti.Útgöngubann í norðurhluta Yangon var framlengt um fjóra klukkutíma og gildir nú frá klukkan sex að kvöldi til sex að morgni. Japanar segjast munu hætta aðstoð við Mjanmar af mannúðarástæðum vegna dráps á japönskum ljósmyndara sem lést í mótmælunum í gær. Fjöldi manns í Asíu mótmæli aðgerðum herstjórnarinnar í Mjanmar í gær og í dag. Fólkið klæddist rauðu til merkis um hina látnu. Ibrahim Gambari sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna er á leið til Mjanmar eftir að herstjórnin gaf leyfi fyrir heimsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×