Erlent

Féllu ofan í eiturefnalaug

Gullnámur í Kína.
Gullnámur í Kína. MYND/AFP

Níu létust í gær þegar gólfflötur í yfirgefnu húsi í miðhluta Kína lét undan með þeim afleiðingum að fólkið féll ofan í holu sem var full af blásýru. Fólkið var samankomið í húsinu til að ræða útför ungs pilts sem hafði fundist látinn í húsinu sama dag.

Slysið átti sér stað í þorpinu Yangping í Henan héraði í miðhluta Kína en þar er mikið af gullnámum. Drengurinn hafði rifist við foreldra sína á miðvikudaginn og eyddi nóttinni í yfirgefnu húsi skammt frá þorpinu. Það sem hvorki drengurinn né aðrir vissu var að húsið stóð ofan á holu sem var full af ýmsum eiturefnum - þar á meðal blásýru.

Eftir að drengurinn fannst látinn boðaði faðir hans til fundar í húsinu þar sem ræða átti útför piltsins. Sextán manns mættu og var það meira en gólfflötur hússins réð við. Fólkið féll niður og beint ofan í holuna eitruðu. Níu létust en sjö var bjargað.

Að sögn lögreglunnar í Henan héraði er talið líklegt að pilturinn hafi látist eftir að hann andaði að sér eitruðum gufum úr holunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×