Erlent

Nóbelsverðlaunahafa hótað

Yasin Hayal hótaði fleiri morðum þegar hann var leiddur í réttarsalinn.
Yasin Hayal hótaði fleiri morðum þegar hann var leiddur í réttarsalinn. MYND/AP

Einn þeirra sem grunaðir eru um að hafa hvatt til morðsins á tyrknesk-armenska blaðamanninum Hrant Dink hefur nú hótað Nóbelsverðlaunahafanum Orhan Pamuk.

„Orhan Pamuk, vertu klár, vertu klár!“ hrópaði Yasin Hayal þegar hann var færður til dómshúss í Istanbúl í gær. Hayal hefur viðurkennt að hafa hvatt til morðsins á Hrant Dink í síðustu viku. Einnig hefur hann viðurkennt að hafa útvegað meintum morðingja bæði byssu og peninga.

Sá sem grunaður er um morðið er atvinnulaus unglingur, Ogun Samast að nafni, sem hefur þegar játað á sig morðið. Samast sagði að Hayal hefði sagt sér að Dink væri föðurlandssvikari og þjóð-níðingur. Hayal hafi fengið sér bæði peninga og mynd af Dink, sem hann hafi borið á sér mánuðum saman.

Hrant Dink var tyrkneskur ríkisborgari af armenskum uppruna og hafði nokkrum sinnum verið ákærður fyrir „þjóðníð“ í Tyrklandi vegna þess að hann hafði opinskátt kallað fjöldamorð á Armenum snemma á 20. öldinni þjóðarmorð.

Orhan Pamuk, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum á síðasta ári, hefur einnig rætt opinskátt um þjóðarmorðið á Armenum. Hann hefur eins og Dink bæði verið ákærður fyrir „þjóðníð“ og fengið morðhótanir.

Saksóknari í Tyrklandi tilkynnti í gær að fimm manns, þar á meðal Samast og Hayal, hefðu verið ákærðir fyrir morðið á Dink.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×