Erlent

Vill átak gegn dauðarefsingum

Ban Ki-moon, sem í desember tók við af Kofi Annan sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti í gær stuðningi við tillögu Ítala um að efna til heimsátaks gegn dauðarefsingum.

Ban lét þessi orð falla í fyrstu heimsókn sinni í höfuðstöðvar Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Hann skoraði á alþjóðasamfélagið að „virða og hlíta öllum … alþjóðlegum mannréttindalögum," einkum og sér í lagi að stöðva beitingu dauðarefsinga.

„Mannhelgi hvers manns ber að virða og vernda," sagði hann á blaðamannafundi eftir viðræður við fulltrúa ESB.

Fastlega er reiknað með að hin 26 ESB-ríkin muni fylkja sér að baki ítölsku tillögunni að heims-átaki gegn dauðarefsingum og að hún verði rædd á vettvangi SÞ næstu mánuði. Búast má við því að ráðamenn í Bandaríkjunum og Kína muni setja sig upp á móti tillögunni en í báðum þessum löndum er fjöldi dauðadæmdra fanga líflátinn á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×