Erlent

Sífellt fleiri vilja afsögn

Moshe Katsav. Forseti Ísraels kemur ásamt eiginkonu sinni frá heimili dóttur þeirra, nokkru áður en hann ávarpaði þingið og bauðst til að víkja tímabundið úr embætti.
Moshe Katsav. Forseti Ísraels kemur ásamt eiginkonu sinni frá heimili dóttur þeirra, nokkru áður en hann ávarpaði þingið og bauðst til að víkja tímabundið úr embætti. MYND/AP

Moshe Katsav, forseti Ísraels, baðst í gær lausnar frá embætti um stundarsakir. Sífellt fleiri krefjast þess þó að hann segi einfaldlega af sér vegna ásakana fjögurra kvenna um að hann hafi áreitt þær kynferðislega og misnotað völd sín.

Á þriðjudaginn tilkynnti Meni Mazuz, aðalsakóknari Ísraels, forsetanum það á þriðjudag að hann yrði ákærður fyrir nauðganir og fyrir að misnota völd sín. Ákæra verður þó ekki lögð fram fyrr en forsetinn hefur fengið tækifæri til að svara ásökunum á hendur sér. Hann hefur jafnan neitað sekt og sagt kærurnar lið í pólitísku sam-særi gegn sér.

Katsav sagðist í gær ófær um að gegna embætti meðan mál hans væri fyrir dómstólum og bað þingið um að veita sér tímabundna lausn úr embætti, allt upp í þrjá mánuði. Fjórar konur sem allar hafa starfað hjá Katsav, ýmist eftir að hann varð forseti eða áður, þegar hann gegndi veigalitlu ráðherraembætti, hafa kært hann fyrir nauðganir og kynferðislega áreitni.

Tzipi Livni, utanríkis- og dómsmálaráðherra, bættist í gær í hóp þeirra sem krefjast þess að Katsav segi af sér. Í gær höfðu þrjátíu þingmenn undirritað beiðni til þingnefndar um að kanna hvort rétt væri að kæra hann til embættismissis, en alls þurfa 90 þingmenn að krefjast afsagnar forseta til þess að honum verði vikið úr embættinu.

Livni sagði að vissulega teldist Katsav saklaus þangað til sekt sannaðist, en bætti við að „hann ætti ekki að berjast fyrir því að sanna sakleysi sitt frá forsetaskrifstofunni“.

Ákærur kvennanna urðu fyrst heyrinkunnar síðastliðið sumar og Katsav hefur lítið komið fram opinberlega síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×