Erlent

Hundrað féllu í árásum í gær

Íraskur drengur fylgist af hjóli sínu með hermönnum að störfum.
Íraskur drengur fylgist af hjóli sínu með hermönnum að störfum. MYND/nordicphotos/afp
Að minnsta kosti hundrað manns létust í skotárásum og sprengingum sem beindust að skotmörkum Sjíta í Bagdad, höfuðborg Íraks, í gær. Tæplega áttatíu manns létust í sprengingu á markaði í mannskæðustu árás sem orðið hefur í Írak í einn og hálfan mánuð. Í lok nóvember létust 215 manns í árás í Bagdad sem talið er að al-Kaída hafi staðið á bakvið og fól í sér hrinu bílsprengja og sjálfsmorðsárása.

Uppreisnarmenn Súnníta og herskáir Sjítar hafa gert höfuðborgina og umhverfi hennar að vígvelli átaka sín á milli. Árásir uppreisnarmanna Súnníta hafa verið að færast í aukana undanfarna daga vegna Ashura trúarhátíðar Sjía sem hófst á sunnudag. Á fimmtudaginn síðastliðinn létust 142 Írakar, þar af 65 háskólastúdentar í einni sprengingu.

Alls féllu 25 bandarískir hermenn í Írak á laugardaginn. Fleiri hermenn Bandaríkjahers í Írak hafa ekki látist á einum degi í tvö ár. Er þetta þriðja mesta mannfall á einum degi síðan stríðið hófst í mars 2003.

Á sunnudag komu um 3.200 bandarískir hermenn til Íraks, en þeir eru fyrsti hluti af 21.500 manna liðsauka sem George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að senda til Íraks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×