Erlent

Þrír fórust í fárviðri

Þessi maður fylgdist með hamagangi hafsins við höfnina í Malmö í Svíþjóð í gær.
Þessi maður fylgdist með hamagangi hafsins við höfnina í Malmö í Svíþjóð í gær. MYND/AP

 Einn drengur og tveir karlmenn fórust í Svíþjóð í gær þegar ofsaveður reið yfir Skandinavíu.

Níu ára drengur lést á sjúkrahúsi skömmu eftir að tré féll ofan á hann í bænum Motala um hádegisbilið. Skömmu síðar varð rúmlega sextugur maður einnig fyrir tré sem féll á bifreið hans í Jön-köping og lést hann samstundis. Eiginkona hans var með honum í bílnum, en hún slapp með minni háttar meiðsli. Síðar um daginn fórst svo 24 ára gamall maður í Källsjö þegar tré féll á lítinn flutningabíl sem hann ók.

Hvassviðri olli því að skipa- og lestasamgöngur sunnan til í Svíþjóð, syðst í Noregi og úti um alla Danmörku nánast lömuðust á tímabili. Eyrarsundsbrúnni milli Svíþjóðar og Danmerkur var lokað fyrir allri umferð og sömuleiðis Stórabeltisbrúnni milli Fjóns og Sjálands.

Tré rifnuðu upp með rótum víða á Jótlandi og stöðvaðist umferð um vegi af þeim sökum. „Stóru trén velta eins og tannstönglar,“ hafði danska dagblaðið Politiken eftir lögregluþjóni í Hjørring, nyrst á Jótlandi. Í Kaupmannahöfn var heilu götunum lokað af ótta við að þök fykju af húsum, en ekkert alvarlegt tjón varð þó af völdum veðursins í Danmörku.

Veðrið gekk yfir Skandinavíu frá vestri til austurs og var fólk varað við að vera á ferli utandyra. Lögregla og slökkvilið höfðu nóg að gera, einkum við að sinna tilkynningum um fallin tré eða lausar þakplötur.

Algengt er að mikið hvassviðri gangi yfir Skandinavíu í janúarmánuði. Óveðrið í gær er það versta á þessum slóðum síðan 9. janúar á síðasta ári.

Norskir veðurfræðingar hafa haft þann sið að gefa verstu óveðrunum nöfn. Hvassviðrið sem gekk yfir í gær hlaut nafnið Per en stormurinn sem gerði hvað mestan óskunda fyrir ári hét Guðrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×