Innlent

Skafmiðar geta leitt til fíknar

Júlíus Þór Júlíusson segir samband milli skafmiða og spilafíknar og að mjög ung börn kaupi skafmiða í stórum stíl.
Júlíus Þór Júlíusson segir samband milli skafmiða og spilafíknar og að mjög ung börn kaupi skafmiða í stórum stíl. MYND/Róbert

Börn og unglingar kaupa skafmiða í sjálfsölum fyrir talsvert háar upphæðir. Happdrætti Háskólans á tugi slíkra sjálfsala sem staðsettir eru í matvöruverslunum og í verslunarmiðstöðvum og eru án eftirlits. Erlendar kannanir sýna að börnum og unglingum sem byrja að spila í happdrætti með kaupum á skafmiðum er hættara við að glíma við spilafíkn síðar á ævinni.

Júlíus Þór Júlíusson, formaður SÁS, segir ljóst að mjög ung börn kaupi skafmiða í sjálfsölum. Almennt líti fólk ekki á skafmiða sem vandamál, hvað þá að tengja þá við spilafíkn eins og hún birtist. „Það er engu að síður staðreynd að allar rannsóknir sýna fram á að það er samhengi á milli slíkrar spilamennsku snemma á ævinni og vandamála síðar. Einnig að unglingar kaupa skafmiða í miklu magni í sumum tilfellum og fara með alla sína peninga í skafmiðakaup.“

Brynjólfur Sigurðsson, forstjóri Happdrættis Háskólans, segir það rétt að óæskilegt sé að ungmenni hafi greiðan aðgang að skafmiðum í sjálfsölum. „Við eigum 62 skafmiðasjálfsala og þar af eru 49 á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum verið að ræða hvernig við getum komið í veg fyrir að yngri en 18 ára kaupi skafmiða í sjálfsölum okkar. Við erum að leita lausna á þessum vanda og þykir það mjög leitt að börn kaupi skafmiða, því við viljum fara að öllum lögum og reglum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×