Framherjinn Obafemi Martins hjá Inter Milan á Ítalíu segir að samningaviðræður sínar við Newcastle séu að mestu í höfn og á von á að ganga til liðs við enska félagið á næstu dögum. Martins er ósáttur í herbúðum ítalska liðisins síðan það keypti til sín tvo sterka framherja á dögunum og vill ólmur komast til Englands.
"Ég er hársbreidd frá því að ganga í raðir Newcastle, þó viðræður hafi á tíðum gengið erfiðlega. Mér sýnist á öllu að samningar milli mín og Newcastle séu langt komnir," sagði leikmaðurinn. Forráðamenn Newcastle neita að tjá sig um málið, en ítalska liðið segir að ekkert nýtt sé að frétta í málinu annað en það að Newcastle hafi gert fyrirspurn um leikmanninn. Ef kaupin ná fram að ganga þykir víst að hann muni kosta enska félagið tæpar 11 milljónir punda.