Erlent

Þúsundir hermanna í viðbragðsstöðu í Beirút

Þúsundir líbanskra hermanna og lögreglumanna eru þegar komnir á vaktina í miðborg Beirút, þar sem Hisbollah-hreyfingin hefur kallað stuðningsmenn sína til sitjandi mótmæla gegn ríkisstjórninni, eða þess sem eftir er af henni, sem nýtur stuðnings Vesturlanda. Mótmælin byrja formlega klukkan eitt eftir hádegi að íslenskum tíma.

Ráðuneytisbyggingum í miðborg Beirútar hefur verið lokað af með gaddavír og farartálmum en í næsta nágrenni eru Hisbollah-liðar að festa upp mótmælaborða og hátalarakerfi. Engin tímamörk eru sett á mótmælin en varaleiðtogi Hisbollah, sjeik Naim Kassem sagði að mótmælendurnir myndu sitja sem fastast allt þar til ríkisstjórnin viki úr sínum sætum.

Fouad Siniora, forsætisráðherra, segist hvergi munu hvika, mótmælin hafi engin áhrif á hann eða hans ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×