Innlent

Ekki ákært aftur vegna alvarlegustu brotanna í Baugsmálinu

Settur saksóknari í Baugsmálinu ætlar ekki að ákæra í þriðja sinn vegna alvarlegustu brotana í þessu máli. Hann tilkynnti þessa niðurstöðu í dag ásamt því að benda á að enn væru til efnislegrar meðferðar fyrir dómi, átján alvarlegir ákæruliðir.

Nú liggur fyrir að endanleg niðurstaða er komin í fyrsta lið ákærukaflans í Baugsmálinu svokallaða en hann var sá alvarlegasti í málinu og snéri að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og félögum. Þessi fyrsti liður ákærunnar snerist í stuttu máli um meinta sviksemi við kaup á 10/11 verslununum, fyrst til félaga í eigu Jóns Ásgeirs sjálfs og síðar frá þeim til Baugs. Var talið að þar hefðu hagsmunir almenningshlutafélagsins Baugs verið fyrir borð bornir og félgið skaðast um hundruð milljóna króna. Þessi ákæruliður hefur farið tvo hringi í dómskerfinu, tvisvar í gegnum bæði dómsstig. Í öllum tilfellum hefur ákærunni verið vísað frá og hún aldrei fengið efnislega meðferð.

Þegar Hæstiréttur staðfesti frávísun sína á þessum ákæruliðum fyrir mánuði tjáði Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, sig um að kannað yrði hvort ákært yrði aftur í þessu máli. Nú liggur fyrir að svo verður ekki. Í yfirlýsingu frá Sigurði Tómasi segir að dregið hafi svo úr líkum á að dómstólar muni sakfella ákærða fyrir hin ætluðu brot að ekki sé tilefni til þess að gefa út nýja ákæru vegna þeirra. Áréttar Sigurður þó að átján ákæruliðir standi eftir í málinu og bíði efnislegrar meðferðar fyrir dómi. Snúist þeir ákæruliðir um fjárdrátt, ólögmætar lánveitingar, meiri-háttar bókhaldsbrot og röngum tilkynningum til Verðbréfaþings.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×