Erlent

Alnæmisfaraldur hefur lamað atvinnulíf ríkja

Frá athöfn í Djarkarta í Indónesíu vegna alþjóðlega alnæmisdagsins.
Frá athöfn í Djarkarta í Indónesíu vegna alþjóðlega alnæmisdagsins. MYND/AP

3,5 milljónir vinnufærra manna dóu úr alnæmi á síðasta ári en faraldurinn hefur lamað atvinnulíf fjölmargra ríkja. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Alþjóðaalnæmisdagurinn er í dag en markmið hans er að vekja fólk til vitundar um sjúkdóminn og veiruna sem veldur honum sem 42 milljónir jarðarbúa ganga með í sér.

Af því tilefni birti Alþjóðavinnumálastofnunin skýrslu sína um áhrif alnæmis á atvinnulíf heimsins en þar kemur meðal annars fram að 3,5 milljónir vinnufærra manna hafi látist úr veikinni á síðasta ári. Sérfræðingar stofnunarinnar telja að 1,3 milljónir starfa hafi tapast árlega vegna HIV-veirunnar og í þeim 43 löndum þar sem tíðnin er hæst hefur hægst á hagvexti sem nemur allt að 0,7 prósentum.

Haldi HIV-veiran að breiðast út með sama hraða í heiminum telur stofnunin að hún hafi dregið 45 milljónir vinnufærs fólks í heiminum til dauða árið 2010. En HIV-veiran ræðst ekki bara á fullorðið fólk því frá árinu 2000 hafa 800.000 börn smitast af henni, þar af eru 600.000 þegar látin. Verst er ástandið í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar en í sumum löndum álfunnar er allt að þriðjungur fólks smitaður.

Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skoraði í gær á þjóðir heims að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins. Það stæði ekki einungis upp á stjórnmálamenn að vinna að því heldur einnig hvern og einn jarðarbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×