Erlent

Íranar tilbúnir til viðræðna

Íranar eru tilbúnir til viðræðna um kjarnorkuáætlanir sínar en segja Bandaríkjamenn ekki setja skilyrðin. Forseti landsins segir Írana aldrei munu gefa upp rétt sinn til að auðga úran. Forsetinn sagði þó í gær að Íranar myndu athuga og íhuga vel þau tilboð sem kæmu frá fulltrúm þeirra fimm ríkja sem eiga fast sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Unnið er nú hörðum höndum við að útbúa tilboð sem gera á Írönum á næstu dögum og er vonast til að það verði nógu freistandi til að þeir leggi áætlanir sínar um að auðga úran á hilluna. Menn eru þó síður en svo sannfærðir um að svo verði, þar sem forsetinn hefur sagt útilokað að Íranar gefi upp rétt sinn til að auðga úran sem sé réttur allra þjóða, ekki bara þeirra sem Bandaríkjamönnum líkar við.

Bandaríkjamenn eru sannfærðir um að Íranar ætli sér að framleiða kjarnorkuvopn en því hafa Íranar alltaf neitað. Íranar hafa þó aukið framleiðslu sína á eldflaugum sem borið geta kjarnaodda og hefur það ekki minnkað grunsemdir Bandaríkjamanna sem segja Írana geta framleitt kjarnorkuvopn á næstu fjórum árum, verði þeir ekki stöðvaðir.

Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, sagði í dag að ef Bandaríkin léku rangan leik, gæti það haft áhrif á olíuviðskipti landsins en Bandaríkjamenn hafa ekki útilokað árásir á landið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×