Fimmtán sveitarfélög á landinu hafa, að sögn félagsmálaráðuneytisins, ekki valið eða ráðið sveitarstjóra, frá sveitarstjórnarkosningunum nú í maí.
Það er ekki búið að ákveða með þetta, oddvitinn tekur þetta starf að sér tímabundið, segir Hermann Ingi Ingólfsson, sveitarstjórnarmaður í Kjósarhreppi, en þar hefur sveitarstjóri ekki verið ráðinn. Hann hefur tíma í það og ætlar að sinna því. Okkur liggur ekkert á að ráða á meðan við getum séð um þetta sjálf. Þetta stendur þó til, en ekki að sinni.
Oddviti gegnir bara störfum sveitarstjóra hér, segir Brynjólfur Árnason, sveitarstjórnarmaður í Grímsey. Það stendur ekki til, enda höfum við aldrei ráðið sveitarstjóra í Grímsey.
Undanfarin fimm, sex ár, hefur bara verið samið við oddvita um að gegna þessu starfi sem kallað er sveitarstjórastarf, segir Gunnþórunn Ingólfsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Fljótsdalshreppi. Það verður ekki ráðinn ópólitískur sveitarstjóri, heldur er oddviti bara fastráðinn launamaður.